Sætar gulrætur í girnilegum tertum

Útgefið af Tertugallerí Myllunnar þann

Gulrótaterturnar okkar hjá Tertugalleríinu eru sívinsælar. Þær eru bragðgóðar og þétt áferðin fellur mörgum í geð. Það vita þó ekki allir að rekja má þann sið að nota gulrætur í kökur aftur til miðalda.

Ekki er gott að segja nákvæmlega hvenær gulrótum var fyrst bætt í kökudeig, enda verr haldið utan um framfarir í kökugerð en mörgum öðrum iðngreinum í gegnum tíðina.

Fjallað er um gulrótakökuna á vef bresks gulrótasafns. Þar segir að einhverskonar gulrótakaka hafi orðið til á miðöldum þegar sætuefni voru af skornum skammti og bakarar horfðu hýru auga til dísætra gulróta. Líklega voru gulræturnar fyrst notaðar í búðing en síðar í kökur.

Gulrætur eru næst sætasta grænmetið, aðeins sykurrófurnar eru sætari. Þar sem gulræturnar voru mun algengara grænmeti voru þær notaðar í sæta eftirrétti og þar með kökur af ýmsum gerðum.

Ein af elstu uppskriftunum af gulrótarköku eins og við þekkjum hana í dag er talin vera úr svissneskri uppskriftabók frá árinu 1892. Enn þann dag í dag er gulrótarkakan afar vinsæl í Sviss, og oft boðið upp á gulrótarköku í afmælum.

Gulrótaterturnar urðu vinsælar í Bretlandi á meðan síðari heimsstyrjöldin geisaði. Þá komu sætu gulræturnar sér vel, enda sykur af skornum skammti.

Vinsældir gulrótatertunnar hafa síður en svo dalað þrátt fyrir aukið framboð af hverskonar kökum og sætmeti. Gulrótatertur eru vinsæll eftirréttur í Bandaríkjunum, og í könnun sem bresk útvarpsstöð gerði árið 2011 fannst flestum að gulrótatertan væri besta tertan.

Við hjá Tertugalleríinu fylgjum hefðinni og setjum rjómaostakrem á gulrótaterturnar. Rjómaostakremið náði vinsældum í Bandaríkjunum á sjöunda áratugnum. Svipuð krem voru þó vinsæl í Austur-Evrópu og hreint ekki ólíklegt að þau hafi ratað ofan á gulrótatertur þar áður en bandarísku bakararnir prófuðu kremið í fyrsta skipti.

Við hjá Tertugalleríinu bjóðum upp á gómsætar gulrótatertur fyrir þá sem vilja prófa þessa sögulegu tertu. Hægt er að fá bæði kringlótta og ferkantaða tertu. Hvor um sig ætti að duga fyrir 15 manns, svo það er um að gera að finna sér tilefni á næstunni og bjóða svo upp á gómsæta gulrótartertu.

Kíktu á úrvalið af gulrótatertunum okkar, bæði kringlóttum og ferköntuðum.


Deila þessari færslu← Eldri færsla Nýrri færsla →