Hefurðu boðið vinahópnum í kransakökufondú?

Útgefið af Tertugallerí Myllunnar þann

Sumarið er tíminn fyrir tilraunstarfssemi enda viljum við flest brydda upp á nýjungum og lyfta okkur aðeins upp. Við búum okkur til tilefni til að hittast og fátt er hátíðlegra þegar góðir vinir hittast en freyðivín (sem er líka til óáfengt) og kransakökur frá Tertugalleríinu. Freyðivínið og kransakökurnar eru fallegt myndefni og skapa eftirminnilega stund þegar krydda á tilveruna. En það er jafnvel hægt að taka vinahittinginn enn lengra með kransakökum og freyðivíni með því að hafa kransakökufondú en þau eru að ryðja sér til rúms í Skandinavíu.

Kransakökufondú er einfaldlega þannig að þú reiðir fram hefðbundna kransaköku og fólk brýtur af henni bita til að narta í með freyðivíninu - nema, þú býður líka upp á ídýfur og litríkt kurl sem passa með. Og hér eru fjórar tillögur að kransakökuídýfum fyrir fondú.

Saltkaramellu ídýfa er algjörlega himnesk ein og sér, en með kransaköku og freyðivíni opnast einfaldlega ný vídd hjá bragðlaukunum. Karamellusósa er gerð með því að bræða sykur, um 200 grömm, við vægan hita á pönnu. Þegar sykurinn er allur bráðnaður er bætt við smjöri, um 2 matskeiðar og það hrært saman með teskeið af grófu salti sem hefur verið mulið örlítið fínna á milli fingra. Flögusalt er best í þetta. Loks er settur einn desilítri af rjóma til að hafa karmelluna mátulega þunna fyrir ídýfuna.

Hindberjalakkrís ídýfa er alveg í hina áttina en passar líka mjög vel með kransakökunni. Hún er afskaplega einföld. Frosin hindber duga en 300 grömm ættu að nægja í ídýfuna. Berin eru látin sjóða í smá vatni og svona tveimur matskeiðum af sykri í litlum potti. Látið suðuna malla í allavega 3 mínútur og bætið við vatni ef þetta er of þykkt. Loks má setja lakkrísduft út í og sítrónusafa úr einni sítrónu og blanda öllu vel saman með töfrasprota.

Kampavínsfroða er ekki fráleit með, þótt freyðivín sé í boði með kransakökunni. Kampavínsfroðan er nefnilega brúin á milli kransakökunnar og freyðivínsins í bragði. Kampavínsfroða er sjaldnast gerð úr alvöru kampavíni en ódýrari gerð af freyðivíni dugar nefnilega vel. Í kampavínsfroðuna fara 100 grömm af flórsykri, 3-4 eggjarauður, teskeið af vanilluextrakt, desilítri af freyðivíni og desilítri af þeyttum rjóma. Blandið flórsykrinum, eggjarauðunum, vanillunni og kampavíninu í hitaþolna skál. Hitið yfir vatnsbaði, mjög rólega og þeytið á meðan. Gætið að því að blandan sjóði ekki. Hún þarf bara að hitna og verða froðukennd, þá er hún tilbúin sem sést ef blandan hylur bakhliðina á skeið. Einnig sést hvort blandan er tilbúin með því að gera áttuform í blönduna með skeiðinni og ef það heldur sér í smá stund þá er blandan klár. Svo er bara að kæla blönduna og þegar hún er orðin köld er þeytti rjóminn brotinn vandlega út í. Það má svo nota meira freyðivín til að þynna ídýfuna.

Bleik súkkulaðisósa er afskaplega falleg á kransakökubrot og er líka einföldust af öllum ídýfunum. Þar bræðir þú einfaldlega hvítt súkkulaði og hrærir fínmöluðum þurrkuðum hindberjum út í til að gefa lit og bragð.

Þegar blöndunar eru klárar þá er gott að hafa smá kurl með til skrauts og til að auka fjölbreytnina enn frekar. Kurlið getur verið mulinn smartís, muldar pístasíuhnetur, kókosflögur, lakkrískurl eða hvað annað sem þér dettur í hug.

Þetta er svo sannarlega uppskrift góðu kvöldi með vinum og vinkonum.

Deila þessari færslu← Eldri færsla Nýrri færsla →